Gráa svæðið

31.12.14

Jólakveðja 2015

Click to play this Smilebox slideshow
Create your own slideshow - Powered by Smilebox
Another free picture slideshow by Smilebox

26.3.13

Limrudagbók 2013


Sunnudagur 17. febrúar (13 stig)
Ég bregð fyrir mig fæti
flækist um ókunnug stræti
geng aftur og fram
yfir brúna á Cam
en oftast sjálfum mér mæti.

Mánudagur 18. febrúar (8 stig)
Ef augað er stappað af stírum
og strönduð öll hugsun í nýrum
ég bókinni loka
og niður mér þoka
í Cambridge Library Tea Room.

Þriðjudagur 19. febrúar (5 stig)
Við piltarnir sitjum á pöbbnum
pilsnerglösum þar söfnum 
þótt Bayern skori
og Arsenal þori
að sparka í tuðru með hröfnum.

Miðvikudagur 20. febrúar (3 stig)
Þótt Carluccio gott kaffi
og kökur ítalskar skaffi
er maður minn
öðlingurinn
óítalskur í staffi.

Fimmtudagur 21. febrúar (6 stig)
Röngum megin á Mill Road
rennur ekkert Cam-fljót
þar ég át á mig gat
fékk indverskan mat
og ensk stutt brauð sem ábót.

Föstudagur 22. febrúar (13 stig)
Kvöld eitt yfir Cam-brú æddi
á kvennaskóla dinner snæddi
við Stephen Fry 
í svörtu tie
skegg- um skólakerfið -ræddi.

Laugardagur 23. febrúar (2 stig)
Þeir mótmæla mosku smíði
marsera eins og í stríði
40 menn
en 500 enn
fegurri sýna hugprýði.

Sunnudagur 24. febrúar (8 stig)
Flæddi lárétt eins og foss
fólkið niður Charing Cross
mjótt með mitti
þar ég hitti
fyrir sætu Katie Moss.

Mánudagur 25. febrúar (10 stig)
Undir hvítri klósettsetu
krotað eftir bestu getu
fann ég stóð
ástar ljóð
um Lafði Queen Elísabetu.

Þriðjudagur 26. febrúar (16 stig)
Í stað þess að öskra og æpa
og endalaus bréfin tæpa
er núna hægt
að leggja rækt
við ástvini með því að skæpa.

Miðvikudagur 27. febrúr (10 stig)
Síðasta kvöldið á Catherine Street
til kattanna saknaðaraugum gýt
ljósið slekk
á legubekk
legg ég mig niður, dreymir, hrýt.

Fimmtudagur 28. febrúar (19 stig)
Í dag brosti vorið í bænum
það barst hingað í einum grænum
með káta lund
í heimamund
og kvenkyns þokka norrænum.

Föstudagur 1. mars (5 stig)
Kirkjan við einhvern King 
er kennd og þarfaþing
svo ógnarstór
með drengjakór
sem ómar allt um kring.

Laugardagur 2. mars (9 stig)
Í tólfhundruð mílna fjarlægð frá Fróni
er fræðasetur helgað drottins þjóni
starf portera
er að sortera
hver á og ekki heima hjá Heilögum Jóni.

Sunnudagur 3. mars (5 stig)
Í Aldingarðinum skjátur átu hey
þar ómaði loftið títt af fögru mei
á köflóttum dúk
skálaði Brooke
við Virginiu Woolf í svörtu tei.

Mánudagur 4. mars (6 stig)
Þegar Stebbi treður strý
um stundarsakir burtu flý
fiskinn Wöndu
fyndna bröndu
fiska upp á BBC.

Þriðjudagur 5. mars (3 stig)
Rakst á mann í Manchester-treyju
í meðallagi fullan (af óþreyju)
bjór sinn drakk
af bræði sprakk
bölvanði dómara frá Turkeyju.

Miðvikudagur 6. mars (4 stig)
Arineldur, kalt ávaxtapúns
ommiletta, te, kaffi og rúns-
tykki eða kaka
af nógu er að taka
takk fyrir þennan enska lunch.

Fimmtudagur 7. mars (3 stig)
Baywatch merkinu brennd
berst hún gegn klisjukennd
brjóstgóð mær
hér birtist í gær
og boðaði dýravernd.

Föstudagur 8. mars (2 stig)
Ég hitti fimmtugan hit-mann
sem hafði misst trúna og rhytmann;
að honum lagði
að lesa að bragði
í Leaves of Grass eftir Whitman.

Laugardagur 9. mars (17 stig)
Við brunuðum hvorki bíl í 
né boðuðum komu apríl í
það var best
að taka lest
á laugardaginn til Ely.

Sunnudagur 10. mars (10 stig)
Þið þekkið lífsins kátu lensku
leika sér með orða bernsku
Sykur sætur
Lord ágætur
er ákærður af Stellu Ensku.

Mánudagur 11. mars (3 stig)
Hér leikur allt í lyndi,
að læra er ungs manns yndi
þótt þú stundir
nám með undir-
undirbúningsskólabúningsbindi.

Þriðjudagur 12. mars (5 stig)
Ef dádýr frá bænum Beckley
er boðið í gras hjá ekkli
það fer í skóna
til að prjóna
og hver veit nema það hekli?

Miðvikudagur 13. mars (2 stig)
Í  London er herra Huhne fangi
í hönd hans tók armurinn langi
en í stað þess að skæla
skaltu prísa þig sæla
hér er bara þvottavél í gangi.

Fimmtudagur 14. mars (11 stig)
Upp af strompi stígur reykur
skjannahvítur helgileikur
kardínála
konur bála
kvenpáfinn er rósableikur.

Föstudagur 15. mars (3 stig)
Ég heyrði um hit-mann í Albert
sem hélt að lífið algert
húmbúkk væri
nema hann færi
að fækka því umtalsvert.

Laugardagur 16. mars (7 stig)
Ef heimanámið hark er
og heilinn þráir spark er
heillaráð
að leita á náð-
ir Jesus, Christ og Parker.

Sunnudagur 17. mars (0 stig)
Við kíktum á Cafe Rouge
í keiluhöll eða -hús
Matti vann
Vala fann
sér sussi-hungurlús.

Mánudagur 18. mars (10 stig)
Á fyrstu hæð býr fellow
fjölskyldan leikur á selló
falskt píanó
fiðlu og skó
fúgu sem gerir mig mellow.

Þriðjudagur 19. mars (2 stig)
Lundúnar-auga ég leit
úr lofti þann unaðsreit
vildi samt vera
heima að skera
hrúta í Þingvallasveit.

Miðvikudagur 20. mars (3 stig)
Borðum um borð í vél
banka á kýraugun él
silkisvalir
tveir Ítalir
hreyfa lítið stél.

Fimmtudagur 21. mars (0 stig)
Hljómsveitin var ekki vond
en víruð og svolítið stoned;
Raphael
lék svo vel
við sinn herra Hammond.

Föstudagur 22. mars (12 stig)
Lýðsins öskur lengi vel
lækka um nokkur desíbel
því fótur Gylfa
eins og kylfa
"smellir upp í Samúel".

Laugardagur 23. mars (10 stig)
Lömbin jarma uppi í sveit
eru í páskaeggjaleit
hreiður spóa
úti í móa
heimalningum tryggir beit.

Sunnudagur 24. mars (1 stig)
Pizzur, vínber og pestó
ég panta í Novo Mesto
en vors í stað
var brotið blað
hér bara hefur fest snjó.

Mánudagur 25. mars (5 stig)
Í kuldabirtu kirkjuljósa
kórinn var við það að frjósa,
samt þær sungu
á englatungu:
"Stabat mater dolorosa".

Þriðjudagur 26. mars (6 stig)
Gorizia gamla og nýja
geislar sólar og hlýja
úr kaldri skor
í blómlegt vor
la bella Ítalía.

Miðvikudagur 27. mars (2 stig)
Í útlöndum eilíft að garfa
og annars að njóta óþarfa
var karlinn Jón
en heim á Frón
er kominn að slægja karfa.

Miðvikudagur 24. apríl (16 stig)
Snjókorn á elleftu stundu
sumarkomuna bundu
eitt andartak
uns andakvak
ómaði um græna grundu.

Laugardagur 1. júní (18 stig)
Svefnlaus ég er í Seatle
sullandi í víni og fatöl
eftir ferð um heiminn
hálfan og gleyminn
hættur að kunna á dagatöl.

Sunnudagur 2. júní (12 stig)
Á hjólhesti mér gæsagang
gærdagurinn færði í fang
brautin bein
og sólin skein
á valhoppandi ferðalang.

Mánudagur 3. júní (4 stig)
Ég kann ekki að dansa tja tja
og tæplega að syngja Gat Ya
en te get ég lagað
og vinina plagað
með laufléttum bolla af Matcha.

Þriðjudagur 4. júní (4 stig)
Ég fylgist með fræknu kvefi
ferðast úr hálsi og nefi
að sálarglugga
leið örugga
og eflast með hverju skrefi.

Miðvikudagur 5. júní (9 stig)
Á ráðstefnu rekkar slappir
rétt svo komust á lappir
þúsundum saman
en fannst þó gaman
að fá að "afhenda pappír".

Fimmtudagur 6. júní (3 stig)
Í grænum Butchart-görðum
gærdeginum vörðum
á gjósandi brunna
og rósarunna
í rjómablíðu störðum.

Föstudagur 7. júní (4 stig)
Þótt fast á báða jaxla bíti
blóði hræki, kögglum snýti
villist ég
á bataveg
með viðkomu í áka-víti.

Laugardagur 22. júní (27 stig)
Fuglasöngur og saxófónspil
sólargeislar um miðnæturbil
blóm í beði
vinnagleði
gott er vaka og vera til.

Miðvikudagur 26. júní (22 stig)
Dásemdir sólar hika og hopa
af himni ótal dropar dropa
ég sit af mér skúr
eftir hjólatúr
í Eymundsson yfir kaffisopa.

Fimmtudagur 18. júlí (22 stig)
Heyrið, nú hætt er að rigna 
við horfum á fljótið lygna
frá Pont Neuf
í heimsins höf
halda. Já, svona er Signa.

Föstudagur 19. júlí (18 stig)
Hér leiðast léttfætt pör
og leggja vör við vör
sleikja góma
með sykri og rjóma.
Já, svona er Sacre-Coeur.

Laugardagur 20. júlí (5 stig)
Hann stingur í stúf við garð Gufuness
grafhýsi stórmenna sjá til þess
allt okkar hold
þó verður mold,
meira að segja í Père Lachaise.

Sunnudagur 21. júlí (12 stig)
Var arkitektinn edrú?
Er útlitið útúr kú?
Hús með sálsýki?
Franskt Slunkaríki?
Já, svona er Pompidou.

Mánudagur 22. júlí (10 stig)
Hitinn útheimtir svitasprey
hávaðinn slær út Bjarnarey
en eigi skal kvarta
því Parísar hjarta
hamast hér við Montorgueil.

Þriðjudagur 23. júlí (8 stig)
Við héldum seint áleiðis heim
með hraðlest frá Bir-Hakeim
farsímasvangur
fingralangur
tók fólkinu höndum tveim.

Miðvikudagur 24. júlí (6 stig)
Við sáum dröfnóttar dúfur
dotta og leggja kollhúfur
en Monu Lísu
mega-skvísu
við misstum af í Louvre.

Föstudagur 26. júlí (15 stig)
Þrestirnir þöndu sín lungu
þjóðlögin ósjálfrátt sungu
með hunang í huga
suðaði fluga
í hlýlegri Skaftártungu.

Laugardagur 3. ágúst (10 stig)
Á flötunum austan við Skógarfoss
Friðþjófur bílstjóri vakti oss
rósfingruð rúta
með útblástursstúta
rak á eyrun rembingskoss.

Sunnudagur 4. ágúst (17 stig)
Mannfólkið líkist lóum
svo léttklætt að guði er nóg um
lofar hans gæsku
og eilífa æsku.
Já, indælt er lífið að Skógum.

Fimmtudagur 8. ágúst (13 stig)
Þrekinn í herðum, þéttur á velli
Thor er að glíma við kerlingu Elli
hjá læk inní bæjargili
"líkt eins og mynd á þili"
eftir listasmiðinn frá Húsafelli.

Þriðjudagur 13. ágúst (43 stig)
Guð er bæði skapandi og góður
hann græjaði himin og jarðargróður
og nú hann hefur
þessi gamli refur
gert unglinginn mig að afabróður,

Laugardagur 17. ágúst (23 stig)
Ef hrjáir þig leti eða leiði
og lestir af sama meiði
er heillaráð
í lengd og bráð
að hjóla yfir Bláskógaheiði.

Fimmtudagur 22. ágúst (7 stig)
Líf með brestum og braki
baktali, orðaskaki
fögur, kjaftfor
kornung Taylor
köttur á heitu þaki.

Fösturdagur 23. ágúst (19 stig)
Dagur helgaður dundi
og dálitlum miðdegisblundi.
Er ekki best
fyrir rest
heima í Skipasundi?

Þriðjudagur 27. ágúst (17 stig)
Íslensk fræði dýpkaði dýnamít
í drullupolli þau lóna einskisnýt
skammt frá þaðan
þjóðarbókhlaðan
þjáist af sögusögn um rottuskít.

Fimmtudagur 29. ágúst (11 stig)
Kanadamenn á krána
komu að "fá sér í tána"
uns gin-keypt
hún var gleypt
af glorhungruðum bjána.

Föstudagur 30. ágúst (20 stig)
Varúð hér er veðurfregn
vita máttu úti er regn
vatn og væta
guði græta
gegndrepa er þjóðarþegn.

Fimmtudagur 5. september (8 stig)
Öðruvísi mér áður brá
árdegissól í lofti lá
en ekki var laust við
að boðuðu haustið
hrímað gras og gulnuð strá.

Föstudagur 6. september (4 stig)
Á mig sækir syfjan
sæng uppreidd er gryfjan
handlegg klíp
kaffi sýp
og kannski aðra ólyfjan.

Laugardagur 14. september (6 stig)
Fjórtán frá Laufafelli
ferðamenn héldu velli
fóru yfir grjót
og Markarfljót
furðusleipir á svelli

Sunnudagur 15. september (5 stig)
Fjórtán að Fjallabaki
ferðamenn stóðu í skaki
hjólhestasveinar
og freyjur akreinar
á fannhvítu öræfalaki.

Laugardagur 21. september (10 stig)
Tungl í lausu loft skín
á ljósvakanum Hagalín
lýsir tíðum
fornum stríðum
Márusar við Vídalín.

Sunnudagur 22. september (10 stig)
Gömul hjörtu slógu hraðar
hvarma vættu fraukur glaðar;
eftir 30 ár
eilítið skár
ástsæl lögin spila Spaðar.

Laugardagur 28. september (26 stig)
Nú er komið næturfrost
njólar visnir, laufin lost
myrkrið snerti
kveiki á kerti
maula kex og mygluost.

Þriðjudagur 8. október (22 stig)
Horfinn er mosinn og móinn
mestanpart undir snjóinn
í slyddu og aur
Stekkjastaur
stingur vetri í skóinn.

Miðvikudagur 16. október (34 stig)
Þekkt er sú regla á þumli
þegar þú leitar að kumli
að leggjast á grúfu
hjá hundaþúfu
og hlusta grannt eftir umli.

En nú er nýlega fundin
notadrýgri jarðbundin
aðferð við leit
að kumli í sveit
sem leynir grösug grundin:

Kortleggðu krossandi stíga
og kafloðna hauga sem síga
en öðru fremur
að gagni kemur
að gá hvar bændurnir míga.

Laugardagur 26. október (13 stig)
Ég þekki piltung og píu
portúgölsk í Brasílíu
sem vínin þamba
og dansa samba
við dillandi melódíu.

Sunnudagur 27. október (3 stig)
Ég veit eina baugalínu
og blók frá Argentínu
sem kalli ansa
og tangó dansa
svo djarft að slær í brýnu.

Mánudagur 28. október (8 stig)
Hvað er íslenskt? Röfl og raus,
að ráfa með hundshaus
eða þá bara
á fætur að fara
flesta daga æðrulaus?

Fimmtudagur 31. október (16 stig)
Naumast ber aftur sitt barr
borgin ef hverfur Jón Gnarr
drag- borgarstjórnar
drottningu fórnar,
drottna aftur kjaftaskar.

Laugardagur 16. nóvember (27 stig)
Frost á fannir kallar,
falla úr lofti mjallar-
dúnn og fiður
leggjast niður
sólin höfði hallar.

Laugardagur 23. nóvember (15 stig)
Við tímann ég elti ólar;
ef árrisull hani gólar
í höfðinu á mér
þá rökkvar hér
í landi rísandi sólar.

Sunnudagur 24. nóvember (7 stig)
Veit einhver hvar við værum
ef vopnaðir skaðræðisskærum
nátthrafnar klipptu
og almennt sviptu
af sofandi fólkinu nærum?

Mánudagur 25. nóvember (5 stig)
Ég geng eftir japanskri götu,
hef göngulag djöflaskötu;
drottins regn
mig í gegn
drepur sem hellt sé úr fötu.

Þriðjudagur 26. nóvember (15 stig)
Dag skal að kveldi dásama
ef dvelurðu í Yokohama
drekkandi saki
og Sukiyaki
seður hungaðan líkama.

Miðvikudagur 27. nóvember (14 stig)
Ég augum leit Fuji fjall
og fékk vægt hjartaáfall
orðlaus góndi
því þar tróndi
Hekla eftir hormónasvall.

Fimmtudagur 28. nóvember (1 stig)
Þótt samúræ sveðjuna brúki
og svínslega lífinu ljúki
sé ég bara
ofleikara
á valdi leikstíls Kabuki.

Föstudagur 29. nóvember (7 stig)
Sunnan við sól og austan mána
Sandmaður mína þyngir brána
með onsen þvotti,
heitum potti
og hálftíma í finnsku sauna.

Laugardagur 30. nóvember (13 stig)
Hér ferðmenn fegurðar leita
sem friðsælir haustlitir veita
en ánægjan víkur
því fjöldinn er slíkur
að fremur en njóta þeir neyta.

Mánudagur 2. desember (26 stig)
Það gerir mig eilítið graman
að guðdómleg Tokyo-daman
með sindrandi brár
og silkimjúkt hár
sé oft eins og læknir í framan.

Miðvikudagur 4. desember
Ég er eins og fólk hér flest
á ferð í neðanjarðarlest
dropi í hafi
kem úr kafi
kannski (það er óstaðfest)